3 Maí 2018 13:08

Þennan mánuðinn er lögreglan að fylgjast sérstaklega með hraðakstri í umdæminu og farsímanotkun ökumanna, en sektir fyrir umferðarlagabrot hækkuðu verulega um síðustu mánaðamót. Þannig hækkaði sektin fyrir notkun farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur úr 5.000 í 40.000 og vonandi verður það til þess að draga úr þessum hræðilega og hættulega ósið, sem margir ökumenn hafa orðið uppvísir að. Lögreglan er þegar byrjuð að hafa afskipti af ökumönnum í kjölfar nýrrar reglugerðar og var einn ökumaður stöðvaður á Reykjanesbraut fyrir þessar sakir, en sá var að nota farsíma við akstur og var ekki með handfrjálsan búnað. Hann fær því 40.000 í sekt fyrir athæfið og 80.000 að auki fyrir að hafa ekið á um 110 km hraða á þessum vegarkafla þar sem leyfður hámarkshraði er 80. Um var að ræða ungan ökumann með bráðabirgðaskírteini, en viðkomandi hafi áður brotið af sér í umferðinni og var kominn með staðfesta punkta í ökuferilsskrá. Eftir nýjasta brotið er ljóst að piltsins bíður akstursbann, en það er vonandi að hann læri af reynslunni og bæti ráð sitt í umferðinni.