12 Nóvember 2007 12:00

Allmargir ökumenn voru staðnir að hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu um helgina en til þeirra náðist á Miklubraut, Sæbraut, Reykjanesbraut, Hafnarfjarðarvegi, Fiskislóð, Gullinbrú og í Ártúnsbrekku, svo nokkrir staðir séu nefndir. Í flestum tilfellum var um að ræða unga ökumenn sem eru þ.a.l. með ökuskírteini til bráðabirgða. Nokkrir þeirra tóku bílpróf fyrir fáeinum vikum en einn umræddra ökumanna, sem er 17 ára, var með sex daga gamalt ökuskírteini. Hann mældist á 123 km hraða í Ártúnsbrekku. Jafnaldri hans var stöðvaður á Gullinbrú en sá ók á 130 km hraða og svo mætti áfram telja.

Eldri og reyndari ökumenn komu líka við sögu í þessu umferðareftirliti lögreglunnar um helgina. Einn á fertugsaldri var stöðvaður á Sæbraut en bíll hans mældist á 128 km hraða. Annar ökumaður, nálægt þrítugu, var tekinn á Reykjanesbraut á 108 km hraða en í þokkabót reyndist viðkomandi jafnframt vera ölvaður.