11 Október 2016 16:32

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt úti sérstöku umferðareftirliti við grunnskólana í umdæminu fyrstu vikur skólaársins. Framkvæmdar voru hraðamælingar við eða í nágrenni tuttugu og þriggja grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu, ýmist við skólana eða á þekktum gönguleiðum barna til og frá skóla. Í öllum tilfellum var um að ræða götur þar sem leyfður hámarkshraði er 30 km. Myndavélabíll embættisins sinnti verkefninu og nú liggja niðurstöðurnar fyrir.

Um þriðjungur ökumanna, eða 34%, ók of hratt eða yfir afskiptahraða, en meðalhraði hinna brotlegu var 43,5 km/klst. Allnokkrir óku á 50 eða hraðar, en sá sem hraðast ók mældist á 66 og á hinn sami yfir höfði sér sviptingu ökuleyfis. Hraðakstur við skólana var misjafnlega slæmur, en einna verstur í námunda við Hólabrekkuskóla og Fellaskóla þar sem helmingur ökumanna, eða 50%, ók of hratt.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var einnig við hraðamælingar við grunnskólana á sama tímabili árið 2015. Þá var brotahlutfallið lægra, eða 28%, og því eru niðurstöðurnar þetta árið vonbrigði. Meðalhraði hinna brotlegu var hins vegar svipaður árin 2015 og 2016.

Lögreglan minnir ökumenn, enn og aftur, á að aka varlega, ekki síst í námunda við skóla enda margir þar á ferli, m.a. nýir vegfarendur sem voru að hefja skólagöngu.