20 September 2019 15:16
Frá því að grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu tóku aftur til starfa í síðasta mánuði hefur lögreglan verið með aukið eftirlit við skólana í umdæminu og þar sem þekkt er að börn þurfi að þvera veg til að komast til og frá skóla, en meðal annars hefur verið notast við ómerkta lögreglubifreið með hraðamyndavélabúnaði við eftirlitið. Fram að þessu hefur hraðamyndavélin skráð 419 hraðakstursbrot þar sem ökumenn mega búast við sekt og í sumum tilfellum að verða sviptir ökuleyfi. Á þessum stöðum, þar sem leyfður hámarkshraði er 30, hefur meðalhraði hinna brotlegu verið 44 km/klst. Við fyrrnefndar hraðamælingar hefur enn fremur 45 ökutækjum verið ekið á 50 km hraða eða meira, en sá sem hraðast ók mældist á 69. Nokkur önnur dæmi voru jafnframt um ökumenn sem óku á meira en tvöföldum leyfðum hámarkshraða. Niðurstaðan sýnir að ökumenn verða að gera betur og því er full ástæða til að minna þá á að aka hægar og sýna meiri tillitssemi í námunda við skólana þar sem margir eru á ferli, m.a. nýir vegfarendur sem voru að hefja skólagöngu.
Allir ættu að geta fallist á mikilvægi þess að leyfður umferðarhraði sé virtur í kringum skólana og við þær leiðir sem börnin okkar nota til að komast til og frá skólum og frístundastarfi. Virðum rétt þeirra – virðum hámarkshraða.