18 Ágúst 2006 12:00
Hraðakstur við grunnskóla er áhyggjuefni nú þegar nemendur snúa til baka eftir sumarleyfi.
Áhyggjurnar eru réttmættar eins og sýndi sig glögglega í fyrradag þegar fylgst var með umferð úr myndavélabíl frá lögreglunni í Reykjavík. Bíllinn var staðsettur við einn af grunnskólum borgarinnar en fjórðungur ökumanna, sem áttu leið þar um, ók of hratt. Við umræddan skóla er 30 km hámarkshraði en meðalhraði hinna brotlegu var tæplega 50 km. Raunar þarf alltaf að sýna aðgæslu við grunnskólana en þar eru börn að leik árið um kring.
Börn gleyma sér gjarnan og geta átt það til að hlaupa fyrirvaralaust í veg fyrir umferð. Þetta á ekki síst við um þau yngstu en tæplega 1600 börn setjast nú á skólabekk í fyrsta sinn. Nemendur á grunnskólaaldri eru rúmlega 15 þúsund og sækja þeir nám í 44 skólum í borginni. Lögreglan í Reykjavík hvetur því ökumenn til að sýna varúð og biður þá að sýna ungum vegfarendum sérstaka tillitssemi.