14 September 2017 13:36
Frá því að grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu hófu starfsemi sína nú í haust hefur lögreglan verið með aukið eftirlit við skólanna og þar sem þekkt er að börn þurfi að þvera veg til að komast til og frá skóla. Meðal annars notast lögreglan við ómerkta lögreglubifreið með hraðamyndavélabúnaði.
Fram að þessu hefur hraðamyndavélin skráð 761 hraðakstursbrot þar sem ökumenn mega búast við sekt og í sumum tilfellum verða sviptir ökuleyfi. Var nokkuð algengt að ökumenn voru að aka um og yfir tvöföldum leyfðum hámarkshraða. Að meðaltali óku 34% ökumanna of hratt og því ljóst að allt of margir eru ekki að virða þann hámarkshraða sem er í námunda við skólana.
Á mannamáli má segja að allir ökumenn ættu að geta fallist á mikilvægi þess að umferðarhraði sé eðlilegur kringum skóla og þær leiðir sem börnin okkar nota til að komast til og frá skólum og frístundastarfi. Virðum rétt þeirra – virðum hámarkshraða.