3 Nóvember 2008 12:00

Brot 115 ökumanna voru mynduð á Reykjanesbraut í Garðabæ á föstudag. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Reykjanesbraut í suðurátt, við Arnarnesveg. Á einni klukkustund, eftir hádegi,  fóru 1.112 ökutæki þessa akstursleið og því óku allmargir ökumenn, eða 10%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var tæplega 63 km/klst en þarna er nú leyfður 50 km hámarkshraði sökum framkvæmda sem standa yfir. Sjö óku á 70 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 74. Þegar vöktunin stóð yfir var búið að þrengja að umferðinni á þessum stað og ökutæki fóru því um eina akrein í stað tveggja, eins og venjan er. Tafir voru af þessum sökum. Deginum áður var lögreglan með eftirlit á nákvæmlega sama stað og þá var brotahlutfallið 29% og meðalhraði hinna brotlegu 65 km/klst. Þá voru hinsvegar báðar akreinar til suðurs opnar fyrir umferð.

Vöktun lögreglunnar á Reykjanesbraut er liður í eftirliti með hraðakstri við vinnusvæði í umdæminu.

Ökumenn sýna ekki nógu mikla tillitssemi við vinnusvæði.