4 Apríl 2006 12:00
Lögreglan í Reykjavík var með hraðamyndavél í Hvalfjarðargöngum síðastliðna helgi. Frá föstudeginum 31.mars kl 11:08 til og með mánudagsins 3.apríl óku 7993 ökutæki í gegnum göngin í norðurátt. Af þessum fjölda ökutækja voru 111 brot vegna hraðaksturs, meðalhraði í hraðakstursbrotum var 88,86 km kl/st
Í febrúar var einnig mælt á sama stað. Frá föstudeginum 17. febrúar til mánudagsins 20. febrúar. Þá óku um Hvalfjarðargöng í norðurátt 7087 ökutæki, af þeim voru 109 brotleg. Meðalhraði í hraðakstursbrotum var 88,74 km kl/st.
Athyglisvert er að á báðum þessum tímabilum er meðalhraði brotlegra nánast sá sami, en hámarkshraði í Hvalfjarðargöngum er 70 km kl/st.
Lögreglan í Reykjavík mun í þessari viku beina athygli sinni að hraðakstri í austurbæ og mun myndavélabifreið vera á ferðinni í þeim hluta Reykjavíkurborgar. Ökumenn mega þó búast við lögreglumönnum víðar í borginni við eftirlit með hraðakstri. Nú styttist í sumarið og hraði eykst oft í kjölfar þess og vill lögreglan í Reykjavík beina þeim tilmælum til ökumanna að virða reglur um hámarkshraða.