23 Júlí 2010 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vaktaði umferð með hraðamyndavél á nokkrum stöðum þessa vikuna.

Þannig var umferð vöktuð við Breiðholtsbraut þar sem hámarkshraði er 60 km/klst. Vélin vaktaði 467 ökutæki á einni klukkustund og óku 17 prósent þeirra yfir leyfilegum hámarkshraða. Meðal hraði þeirra sem óku of hratt var 73,46 km/klst og mældist sá sem hraðast fór á 95 km/klst.

Sama dag voru gerðar mælingar við Sævarhöfða enda borist margar ábendingar m.a. frá lögreglumönnum um hraðakstur á svæðinu. Þetta var síðan staðfest með mælingu því á einni klukkustund vaktaði hraðamyndavél 164 ökutæki og þar af óku 31 prósent yfir leyfilegum hámarkshraða og mældist sá sem hraðast fór á 110 km/klst.

Þá var gerð mæling við Hátún á svæði þar sem hámarkshraði er 30 km/klst eftir ábendingu frá íbúa á svæðinu. Reyndist sú ábending rétt því á einni klukkustund reyndust 39 prósent af þeim ökutækjum sem mæld voru vera yfir leyfilegum hámarkshraða. Meðalhraði brotlegra var 44,62 km/klst og var sá sem hraðast fór mældur á 55 km/klst.

Þá var gerð mæling við Seljaskóga í eina klukkustund eftir hádegi í gær með hraðamyndavél. Um er að ræða svæði þar sem hámarkshraði er 50 km/klst og hafði íbúi á svæðinu óskað eftir því við lögreglu að gerðar yrðu hraðamælingar þarna. Á tímabilinu voru vöktuð 89 ökutæki, þar af óku 12 þeirra yfir hámarkshraða eða 13 prósent ökutækja. Meðalhraði þeirra ökutækja sem ekið var yfir hámarkshraða var 64,33 km/klst, en sá sem fór hraðast ók á 72 km/klst.