4 Júlí 2019 13:48

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var við hraðamælingar á tveimur stöðum á Hringbraut í Reykjavík í vikunni, en um er að ræða vegkafla á milli Sæmundargötu og Ánanausta þar sem leyfður hámarkshraði var nýverið lækkaður úr 50 í 40 í kjölfar umferðarslyss sem varð á þessum slóðum, en í framhaldinu urðu töluverðar umræður um leiðir til úrbóta. Á einni klukkustund eftir hádegi á mánudag voru mynduðu brot 100 ökumanna, sem óku Hringbraut í austurátt, við Furumel. Á umræddum tíma fóru 479 ökutæki þessa akstursleið og því var brotahlutfallið 21%, en meðalhraði hinna brotlegu var 54 km/klst og sá sem hraðast ók mældist á 67. Á einni klukkustund eftir hádegi í gær voru svo mynduðu brot 76 ökumanna, sem óku Hringbraut í vesturátt, við Brávallagötu. Á umræddum tíma fóru 598 ökutæki þessa akstursleið og því var brotahlutfallið 13%, en meðalhraði hinna brotlegu var 53 km/klst og sá sem hraðast ók mældist á 64.

Brotahlutfallið nú er nokkru hærra, en við fyrri hraðamælingar á þessum vegkafla þegar leyfður hámarkshraði var 50, en þá var það 5 – 8%. Meðalhraði hinna brotlegu í sömu hraðamælingum var hins vegar 62 – 64 km/klst. Lögreglan mun áfram verða við umferðareftirlit á þessum sem öðrum stöðum í umdæminu.