19 September 2005 12:00

Eins og ætlað var, var lögreglan í Reykjavík með sérstakt umferðareftirlit í Grafarvogi síðastliðna viku. Mæt var við skólana í hverfinu og aðallega á götum með 30 km. hámarkshraða. Hraðamælt var m.a. á Fjallkonuvegi við Foldaskóla og mega 64 ökumenn sem um þá götu óku eiga von á að hljóta sekt fyrir of hraðan akstur.  Þessir 64 ökumenn eru 29% þeirra ökumanna sem óku um Fjallkonuveg meðan mælingin fór fram.   Það vakti sérstaka athygli lögreglumanna sem að mælingunum stóðu að tveir ökumenn urðu uppvísir að því að aka á og yfir 50 km. hraða fram hjá kyrrstæðum skólabíl sem var að hleypa skólabörnum út við skólann meðan á mælingu stóð. Brot þessara ökumann voru ljósmynduð svo og brot allra þeirra sem kærðir verða.  Á Hamravík við Víkurskóla óku 30 ökumann það greitt að þeir mega eiga von á sekt en það er 35% þeirra ökumanna sem óku um Hamravíkina meðan mælingin fór fram.  Mælt var einnig á Lokinhömrum í nágrenni Hamraskóla.  Af þeim 108 ökutækjum sem óku um Lokinhamra meðan mæling var gerð reyndist enginn aka yfir hámarkshraða en á Lokinhömrum er 50 km hámarkshraði.

Í liðinni viku, var einnig vegna ábendinga íbúa við Lynghaga, mælt í þeirri götu. Á Lynghaga er 30 km hámarkshraði. Tveir ökumenn óku hraðar en lög leyfa og er það 2% þeirra ökumanna sem óku um Lynghagann meðan mælingin fór fram.

Lögreglan í Reykjavík áætlar að vera áfram með hraðamælingar við grunnskóla  í þessari viku. Áhersla verður einkum í Voga og Langholtshverfi og einnig verður mælt í Grafarholti.