14 Maí 2008 12:00

Í gær handtóku starfsmenn fjármunabrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þrjá Rúmena, tvo karlmenn og eina konu, grunaða um að hafa komið hingað til lands gagngert til að ná fjármunum úr hraðbönkum með stolnum greiðslukortaupplýsingum. Við handtöku og húsleitir fundust á þriðja hundrað kort með greiðslukortaupplýsingum sem talið er að aflað hafi verið með ólögmætum hætti af kortum grunlausra kortanotenda erlendis. Við slíka iðju er oftar en ekki notaður búnaður sem komið er fyrir á eða í grennd við hraðbanka eða annars staðar þar sem tekið er við greiðslukortum. Sambærilegur njósnabúnaður fannst hér á landi síðla árs 2006 í tengslum við handtöku tveggja Rúmena. Áður hafði fundist búnaður í fórum manns sem var að koma hingað til lands með Norrænu. Í fórum þessa fólks fannst einnig reiðufé, sem ætla megi að hafi verið aflað úr hraðbönkum hér á landi.

Rannsókn málsins er á frumstigi. Hún beinist m.a. að því hvort hugsanleg tengsl geti verið við sambærilegt mál sem kom upp um síðastliðna páska. Þá voru tveir Rúmenar handteknir en talið er að þeir hafi tilheyrt hópi sem kom gagngert hingað til lands í sömu erindagjörðum.