22 Október 2008 12:00
Þrír karlar voru í dag úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 27. október að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þeir eru allir grunaðir um að hafa ráðist á tvo lögreglumenn sem voru við skyldustörf í Hraunbæ í Árbæ aðfaranótt sunnudags en árásin var með öllu tilefnislaus. Samtals sitja því fimm karlar í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins en hinir tveir voru í gær úrskurðaðir í gæsluvarðhald sem nær sömuleiðis til 27. október.
Alls hafa tólf menn verið handteknir í þágu rannsóknar málsins. Tveir þeirra voru handteknir í dag og bíða yfirheyrslu. Fimm eru því lausir úr haldi lögreglu en einn þeirra sat um tíma í gæsluvarðhaldi. Lögreglan hefur jafnframt rætt við fjölda vitna en rannsókn málsins miðar vel.