9 Júní 2023 16:15
Hafnarfjarðarlögreglan – Hraustir menn og áræðnir nefnist sýning sem nú stendur yfir í Byggðasafni Hafnarfjarðar og óhætt er að mæla með, en hún opnaði í síðustu viku. Meðfylgjandi eru tvær myndir frá viðburðinum, en á annarri eru félagarnir Pétur Joensen, Ægir Ellertsson, Gissur Guðmundsson, Garðar Kristjánsson, Ólafur G. Emilsson og Sumarliði Guðbjörnsson, en þessir kappar stóðu ófáar vaktir þegar lögreglan í Hafnarfirði var og hét. Á hinni eru svo Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, Björn Pétursson bæjarminjavörður, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri.
Þess má geta að saga lögreglunnar í Hafnarfirði spannar 115 ár, en fyrstu lögregluþjónarnir voru ráðnir til starfa í bænum þann 1. apríl 1908, eða sama ár og Hafnarfjarðarbær fékk kaupstaðarréttindi. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, en frá árinu 2007 hefur löggæslan þar verið rekin undir merkjum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.