26 Mars 2007 12:00
Fimmtíu og sex umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina, nær öll minniháttar. Í tíu tilfellum var um afstungu að ræða en í einu þeirra var ekið á karlmann á þrítugsaldri í miðborginni aðfaranótt laugardags. Í því tilviki fór betur en á horfðist en viðkomandi fór sjálfur á slysadeild. Hinn slasaði, sem var verulega ölvaður, furðaði sig á því að enginn kom til aðstoðar þegar hann hringdi eftir hjálp á slysstað. Skýringin var hins vegar einfaldlega sú að maðurinn hringdi í 211 en ekki 112 sem á vitaskuld að gera í aðstæðum sem þessum.
Þrjátíu og átta ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Karlar voru í miklum meirihluta, eða 31, en rúmlega helmingur þeirra ók á yfir 100 km hraða. Grófasta brotið var framið á Sæbraut aðfaranótt sunnudags en þar mældist bíll 22 ára ökumanns á 155 km hraða en leyfður hámarkshraði er 60. Sömu nótt var liðlega þrítugur ökumaður tekinn á Kringlumýrarbraut á 141 og 18 ára ökumaður var stöðvaður á Reykjanesbraut í Hafnarfirði en bíll hans mældist á 131. Viðkomandi var jafnframt ölvaður. Tæplega fertugur ökumaður var tekinn á Vesturlandsvegi á 142 um miðjan dag í gær og þá var 17 ára ökumaður stöðvaður á Kringlumýrarbraut aðfaranótt laugardags en sá ók á 128 km hraða. Umræddir ökumenn eru allir karlkyns. Fjórir þeirra hafa áður verið teknir fyrir hraðakstur.