16 Ágúst 2006 12:00

Tuttugu og átta ára karlmaður hefur játað að hafa ráðist á tvítuga stúlku í Breiðholti í síðustu viku. Maðurinn var handtekinn í morgun og viðurkenndi verknaðinn í framhaldinu. Árásin, sem átti sér stað aðfaranótt fimmtudagsins 10. ágúst sl., var hrottafengin. Stúlkan var á leið til vinnu sinnar þegar árásin var gerð en maðurinn brá hnífi að hálsi hennar. Hann reyndi að koma fram vilja sínum en stúlkan náði að veita honum mótspyrnu. Að endingu sleppti hann taki sínu og hvarf á braut með farsíma og peninga stúlkunnar. Það var rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík sem upplýsti málið.