23 Febrúar 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann allnokkuð af fíkniefnum við húsleit í Mosfellsbæ í fyrradag. Um var að ræða 900 grömm af tilbúnu marijúana og um 1,4 kg af öðru kannabisefni. Húsráðendur, karl og kona um þrítugt, voru yfirheyrð í þágu rannsóknarinnar en fíkniefnin fundust í þurrkunaraðstöðu í risi hússins. Áður hafði lögreglan haft afskipti af manninum annars staðar og þá fundið á fjórða tug kannabisgræðlinga í bíl hans. Í framhaldinu var leitað á heimili hans með fyrrgreindum árangri. Maðurinn hefur áður komið við sögu hjá lögreglu.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.