10 Febrúar 2019 11:17
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu framkvæmdi átta húsleitir í umdæminu seint í fyrrinótt og í gærmorgun, m.a. á skemmtistað í miðborginni, vegna grunsemda hennar um umfangsmikla brotastarfsemi. Lagt var hald á gögn, búnað og fjármuni, en öll málin tengjast. Höfð voru afskipti af tuttugu og sex einstaklingum og voru tíu þeirra færðir á lögreglustöð til yfirheyrslu, en síðan sleppt úr haldi að henni lokinni.
Fjöldi lögreglumanna og starfsmanna frá embætti skattrannsóknarstjóra tók þátt í aðgerðunum og gengu þær vel fyrir sig. Rannsókn lögreglu er unnin í samvinnu við embætti skattrannsóknarstjóra.
Rannsóknin er á frumstigi, en vegna rannsóknarhagsmuna verða engar frekari upplýsingar veittar um málið að sinni.