13 Júlí 2010 12:00

Undanfarna daga hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu framkvæmt tvær húsleitir í Reykjavík og eina í Hafnarfirði og handtekið þrjá karla í tengslum við rannsóknina en öll málin tengjast. Á þessum stöðum hefur lögreglan fundið um 400 grömm af amfetamíni, tugi kannabisplantna og lítilræði af hassi og marijúana. Afsöguð haglabyssa og skotfæri voru einnig tekin í vörslu lögreglu í þessum aðgerðum en húsleitirnar voru allar framkvæmdar að undangengnum dómsúrskurði. Þremenningarnir eru á þrítugs-, fertugs- og sextugsaldri. Þeir hafa allir áður komið við sögu hjá lögreglu, mismikið þó.