11 Maí 2012 12:00

Fíkniefni fundust við húsleitir í þremur íbúðum í fjölbýlishúsi í Reykjavík í gær. Í einni þeirra var að finna um 70 grömm af amfetamíni, sem voru falin í frysti. Rúmlega fertugur karl var handtekinn í þágu rannsóknarinnar og fluttur í fangageymslu, en í fórum hans fundust til viðbótar nokkur grömm af amfetamíni. Maðurinn tengist Hells Angels. Í annarri íbúð varð barnshafandi kona á þrítugsaldri á vegi lögreglumanna en hjá henni fundust bæði amfetamín og marijúna og viðurkenndi konan neyslu á því síðarnefnda. Lögreglan rakst svo á fullkominn ræktunarbúnað í þriðju íbúðinni en hann var húsráðandi, karl á fertugsaldri, nýbúinn að kaupa. Við frekari leit var einnig að finna marijúana í sömu íbúð. Utan við húsið hafði lögreglan afskipti af karl á þrítugsaldri en sá var að kasta af sér vatni. Viðkomandi hefur áður komið við sögu hjá lögreglu í fíkniefnamálum og einnig vegna tengsla við skipulagða brotastarfsemi erlendra glæpamanna sem hingað hafa komið. Við leit á manninum og í bíl hans var lagt hald á ennþá meira af amfetamíni og marijúana. Aðspurður sagðist hann hafa verið á leið til kunningja síns í blokkinni en sá síðarnefndi er af sama sauðahúsi.

Við aðgerðirnar naut lögreglan aðstoðar fíkniefnaleitarhunds frá tollinum. Sá fjórfætti stóð vel fyrir sínu en eftir að fíkniefni höfðu fundist á tveimur stöðum í fjölbýlishúsinu sýndi hundurinn þriðju íbúðinni mikinn áhuga og lagðist niður fyrir framan hana. Með því tryggði hann að lögreglan gæfi íbúðinni gaum. Þar var sömuleiðis að finna fíkniefni, líkt og að framan greinir.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.