7 Desember 2019 09:30

Í haust og vetur höfum við, annað slagið, verið að rifja upp eitt og annað úr gömlum lögreglusamþykktum og reglum fyrir lögregluna í Reykjavík. Við erum áfram við sama heygarðshornið þennan laugardaginn, en nú er gluggað í VI. kafla reglnanna frá árinu 1933 þar sem undirtitillinn er Hvenær má lögreglan taka mann fastan? Kaflinn skiptist í nokkra liði enda er ítarlega farið yfir málin, m.a. í b-liðnum og er það áhugaverð lesning.

„Þá, sem eru hjer á landi í banni yfirvaldanna, sbr. lög nr. 10 frá 18. maí 1920, 3. gr.
Þá, sem strjúka af skipi, þrátt fyrir það, þótt þeir sjeu þar skráðir, sbr. lög. nr. 56 frá 30. nóv. 1914, 80. gr.
Þá, sem eiga að taka út í dæmda refsingu.
Sveitarómaga eða þá, sem vegna óreglu og slæpingsskapar sjá ekki fyrir framfærslu þeirra, sem þeir eiga að framfæra að lögum, enda hafi sveitarstjórn eða þeir, sem hlut eiga að máli, krafist þess, að viðkomandi sje settur til vinnu, sbr. lög nr. 51/1928 og 43/1927.
Lærlings, sem hafa hlaupið burt frá kennara sínum, ef kennarinn heimtar innan 16 daga að sje fluttur aftur í vistina, sbr. lög nr. 11 frá 31. maí 1927.“

Svo mörg voru þau orð, en ekki er þó hægt að skilja við kaflann án þess að nefna c-liðinn, en þar er nefnilega útlistað hverja má ekki taka fasta. Það eru nefnilega ræðismenn og sendiherrar útlendra ríkja og fjölskyldur þeirra og einkaþjónar. Annar hópur er sömuleiðis tilgreindur, en það eru þingmenn og um þá segir í reglunum „.. má ekki setja í varðhald meðan þing stendur yfir, nema þeir sjeu staðnir að glæp.“