27 Október 2009 12:00

Nokkrir tugir ökumanna voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina en lögreglan var víða við hraðamælingar. Í grófustu brotunum var ekið á 40-50 km hraða umfram leyfðan hámarkshraða og ljóst er að pyngja margra mun léttast verulega vegna þessa. Þetta á m.a. við um ungan pilt sem fór á rúntinn með glænýtt ökuskírteini upp á vasann. Sá var staðinn að hraðakstri í Ártúnsbrekkunni en bíll hans mældist á 128 km hraða. Auk sektarinnar fer pilturinn í akstursbann og verður gert að setjast aftur á skólabekk til að ná réttum tökum á akstrinum. Vonandi kemur hann aftur í umferðina sem betri ökumaður eftir að hafa lært sína lexíu.