19 Apríl 2005 12:00
Talsvert annríki var hjá lögreglu sl. nótt en þá var tilkynnt um lausan eld á tveimur stöðum í Hafnarfirði. Fyrst var tilkynnt um eld í lausri kennslustofu við Öldutúnsskóla, en þar hlaust umtalsvert tjón af, og u.þ.b. tveimur tímum síðar í ruslagámi þar skammt frá. Allt benti til þess að um íkveikju væri að ræða í báðum tilvikum.
Tvö innbrot voru og tilkynnt til lögreglu í nótt, annað í fyrirtæki og hitt í stofnun í Hafnarfirði. Talsverðar skemmdir voru unnar á innanstokksmunum og verðmætum stolið.
Í morgun handtók lögregla tæplega tvítugan pilt á heimili sínu, grunaðan um að hafa staðið að verki í öllum tilvikum. Yfirheyrslur hafa staðið yfir í dag og er pilturinn nú laus úr haldi lögreglu. Hluti þýfisins úr innbrotunum hefur þegar fundist. Játning liggur fyrir og teljast mál þessi, íkveikjurnar báðar og innbrotin, að mestu upplýst.