17 Janúar 2019 14:28
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir desembermánuð 2018 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Alls bárust 684 tilkynningar um hegningarlagabrot í desember og fækkaði tilkynningum því milli mánaða. Tilkynningum um þjófnað fækkaði verulega ef miðað er við síðustu 6 mánuði á undan og einnig fækkaði tilkynningum um eignaspjöll. Hins vegar fjölgaði tilkynningum um innbrot á heimili talsvert ef miðað er við fjölda síðustu sex og 12 mánuði á undan en slík innbrot voru um 67 talsins í desember. Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgaði einnig nokkuð í desember miðað við fjölda síðustu sex og 12 mánuði á undan. Alls bárust 26 tilkynningar um kynferðisbrot sem áttu sér stað í desember. Akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna fjölgaði talsvert á milli mánaða en alls voru þau brot um 160 talsins. Ölvun við akstur fjölgaði einnig á milli mánaða og einnig ef miðað er við síðustu 12 mánuði á undan.