24 Nóvember 2016 17:28
Í gær var brotist inn í tvö heimahús á höfuðborgarsvæðinu. Annað innbrotanna var í tvíbýlishús í Kópavogi að degi til, en hitt í einbýlishús í Mosfellsbæ fyrripart kvölds, en bæði húsin voru mannlaus þegar þjófarnir létu til skarar skríða. Málin eru til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en hún rannsakar einnig nokkur innbrot í einbýlishús í umdæminu sem voru framin að kvöld- og næturlagi um síðustu helgi.
Ekki er ósennilegt að einhver hafi séð til þjófanna og því er ítrekað að fólk láti lögreglu vita um grunsamlegar mannaferðir og að það skrifi líka hjá sér, t.d. bílnúmer eða jafnvel lýsingar á fólki, ef eitthvað óvenjulegt á sér stað í nánasta umhverfi þess. Innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða og því er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga. Munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan. Lögreglan vill ennfremur minna á mikilvægi þess að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum þegar það fer að heiman og ekki er úr vegi að tilkynna nágrönnum um slíkt, en nágrannavarsla getur skipt sköpum þegar kemur að því að upplýsa innbrot eða koma í veg fyrir þau.
Upplýsingum má koma á framfæri í síma 444-1000, með einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu vegna yfirstandandi innbrots skal undantekningarlaust hringja í 112.