29 Janúar 2013 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur upplýst fjölda innbrota í heimahús, sem voru framin í umdæminu í desember og byrjun janúar. Tveir Litháar, sem báðir eru á fertugsaldri, voru handteknir í þágu rannsóknarinnar 5. janúar og hafa þeir setið í gæsluvarðhaldi síðan. Við húsleit á dvalarstað mannanna fundust skartgripir, en hluta þeirra var búið að pakka niður og telur lögreglan að senda hafi átt skartgripina úr landi. Í fórum þeirra fundust munir úr alls nítján innbrotum á höfuðborgarsvæðinu, sem voru framin á tímabilinu 17. desember til 4. janúar. Mennirnir höfðu einnig meðferðis dágóða upphæð í evrum, en lagt var hald á peningana enda eru þeir líka taldir illa fengnir. Litháarnir komu báðir til landsins í desember, annar í byrjun mánaðarins en hinn um miðjan desember.
Þess má geta að í desember sendi lögreglan frá sér tilkynningu og varaði við innbrotum í heimahús og hvatti fólk til að láta vita um grunsamlegar mannaferðir, ekki síst í íbúðahverfum. Tilefnið var innbrot í heimahús, en í öllum tilvikum var aðferð þjófanna sú sama og svo virtist sem þeir væru eingöngu á höttunum eftir skartgripum.