11 Desember 2012 12:00

Undanfarna daga hefur verið brotist inn í nokkur einbýlishús á höfuðborgarsvæðinu. Í öllum tilvikum er aðferð þjófanna sú sama, en þeir brjóta upp stormjárn og fara inn um svefnherbergisglugga. Svo virðist sem þjófarnir séu eingöngu á höttunum eftir skartgripum því öðru hefur ekki verið stolið í þessum  innbrotum.

Sem fyrr hvetur lögreglan fólk til að láta vita um grunsamlegar mannaferðir, ekki síst í íbúðahverfum. Innbrot á heimili eiga sér oft stað að degi til og þá geta upplýsingar, t.d. frá nágrönnum, ráðið miklu. Það sem fólki kann að finnast lítilfjörlegt getur einmitt orðið til þess að upplýsa mál. Hér er m.a. átt við lýsingu á mönnum og bifreiðum en gott er að skrifa slíkt hjá sér ef fólk tekur eftir einhverju óvenjulegu í sínu nánasta umhverfi. Sama gildir um bílnúmer en slíkar upplýsingar geta komið lögreglu á sporið. Innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða og því er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga. Munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan. Lögreglan vill ennfremur minna á mikilvægi þess að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum þegar það fer að heiman.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is