13 September 2006 12:00

Í gær var brotist inn í fjóra bíla í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík. Úr einum þeirra var stolið hluta af búslóð og þá er tölvu saknað úr öðrum. Einnig bárust lögreglunni tilkynningar um innbrot í tvö fyrirtæki. Á öðrum staðnum var skjávarpa stolið en á hinum voru það verkfæri sem voru tekin ófrjálsri hendi. Þjófar voru líka á ferðinni við tvo vinnuskúra í borginni og höfðu þaðan verkfæri á brott með sér.

Þá var óprúttinn aðili á ferðinni í gær og stal tjaldvagni fyrir utan höfuðstöðvar fyrirtækis. Tjaldvagninn fannst svo ekki löngu síðar en ekki er vitað hvort hann skemmdist eitthvað við þetta. Einn bensínþjófnaður var kærður til lögreglunnar og einn maður var færður á lögreglustöð eftir að hann varð uppvís að þjófnaði í matvöruverslun.