28 Apríl 2017 16:14

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar eigendur og umráðamenn ökutækja við því að skilja verðmæti eftir í bílum. Sé það óumflýjanlegt er mikilvægt að slíkir hlutir séu ekki í augsýn. Þetta er ítrekað hér því nokkuð hefur verið um innbrot í bíla á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu, þ.e.a.s. í Hlíðunum og í nágrenni Grandagarðs, en tilkynnt hefur verið um átta innbrot í bíla á þessum svæðum undanfarna daga.

Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um þessi innbrot, sama hversu lítilfjörlegar þær kunna að virðast, eru beðnir um að hafa samband í gegnum fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða netfangið abending@lrh.is Hér er m.a. átt við lýsingu á mönnum og bifreiðum en gott er að skrifa slíkt hjá sér ef fólk tekur eftir einhverju óvenjulegu í sínu nánasta umhverfi. Sama gildir um bílnúmer en slíkar upplýsingar geta komið lögreglu á sporið.