22 Janúar 2009 12:00
Það sem af er árinu hefur verið brotist inn í á annan tug hesthúsa á höfuðborgarsvæðinu. Úr þeim flestum hefur hnökkum verið stolið og lætur nærri að fimmtíu slíkir hafa horfið undanfarið. Ljóst er að tjón eigendanna er mikið en ýmsum öðrum munum hefur jafnframt verið stolið í þessum innbrotum. Fyllsta ástæða er til að vekja athygli á þessu því þjófarnir reyna með einhverjum hætti að selja þýfið. Lögreglan hvetur fólk til að vera á varðbergi og hafa samband ef grunsemdir vakna.
Jafnframt er minnt á ábyrgð þess, þegar svo ber undir, sem kaupir þýfi. Í 264. gr. almennra hegningarlaga er m.a. kveðið á um eftirfarandi: Hver sem tekur við eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti samkvæmt lögum þessum skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Sömu refsingu skal sá sæta sem geymir eða flytur slíkan ávinning, aðstoðar við afhendingu hans eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti. Nú er brot ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að 4 árum. Sé brot framið af gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.