28 Febrúar 2020 17:58

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú tvö innbrot í vinnuvélar í umdæminu í febrúar, en GPS tækjum var stolið í þeim báðum. Um töluverð verðmæti er að ræða og því er tjónið mjög bagalegt fyrir eigendur vinnuvélanna. Í mánuðinum hefur einnig verið tilkynnt um innbrot í vinnuvélar á Norðurlandi, en þar höfðu þjófarnir sömuleiðis GPS tæki á brott með sér. Ekki er ósennilegt að málin tengist, en innbrotin eiga sér að jafnaði stað um helgar að kvöld- og/eða næturlagi. Eigendur og umráðamenn vinnuvéla eru hvattir til að vera á varðbergi og gera ráðstafanir, t.d. að fjarlægja GPS tæki úr vinnuvélum eftir því sem við verður komið, þ.e. þegar vélarnar eru ekki í notkun.