28 Ágúst 2006 12:00

Lögreglunni í Reykjavík hafa borist nokkrar tilkynningar um innbrot um  helgina. Fartölvu var stolið frá læknastofu og verkfæri hurfu frá byggingaraðila. Þá var gúmmíbát stolið úr bílskúr og einhverjir munir voru teknir úr geymslu í fjölbýlishúsi. Einnig var farið inn í hús og sími tekinn ófrjálsri hendi. Í tveimur þessara mála gengu þjófarnir um ólæstar dyr og því vill lögreglan ítreka að fólki gangi eins tryggilega frá og hægt er.

Auk þessara þjófnaðarmála eru nokkur skemmdarverk til rannsóknar. Rúður voru brotnar á fáeinum stöðum og stungið var á dekk bifreiðar. Þá var kveikt í tveimur ruslafötum og ungur maður er grunaður um að skjóta úr loftbyssu og vinna minniháttar skemmdarverk. Af þessari upptalningu má sjá að lögreglumenn höfðu í mörg horn að líta um helgina.