27 Júlí 2006 12:00
Í gær var brotist inn í tvær bifreiðar í Reykjavík og verðmæti höfð á brott. Vitað er að þjófar sækjast eftir fartölvum, MP3-spilurum og álíka hlutum og því hvetur lögreglan alla til að gá að sér. Ef fólk neyðist til að skilja verðmæti eftir í bílum er því bent á að hylja þau með einhverjum ráðum.
Lögreglan var einnig kölluð til í gær vegna nokkurra rúðubrota. Í einu tilvikanna var sennilega um óviljaverk að ræða en þá brotnaði rúða í húsi skammt frá golfvellinum í Mosfellsbæ. Gerandinn er líklega kylfingur sem þarf að laga sveifluna hjá sér.
Þá hafði lögreglan afskipti af pilti sem var að skrifa á umferðarmerki og ljósastaura með tússpenna. Sá var færður á lögreglustöð þar sem hann iðraðist gjörða sinna og lofaði að þrífa eftir sig.