20 Október 2006 12:00

Í gær var tilkynnt um innbrot í tvo bíla í miðbænum. Úr öðrum var m.a. stolið vegabréfum en verkfæratösku var saknað úr hinum bílnum. Þá var farið inn í aðstöðu verktaka í austurbænum en ekki var ljóst hverju var stolið þaðan. Á gistiheimili hafði einhver tekið bakpoka ferðalangs og í verslunarmiðstöð reyndi tæplega fertugur karlmaður að komast undan með varning sem hann hafði tekið ófrjálsri hendi.

Ekki reynast þó allar tilkynningar til lögreglunnar í Reykjavík á rökum reistar. Stundum eru málin einfaldlega byggð á misskilningi eða að þau eiga sér eðlilegar skýringar. Þannig var það a.m.k. í einu tilfelli í gær. Þá hringdi íbúi í fjölbýlishúsi og sagði að þvotturinn hans væri horfinn úr sameigninni. Sami maður hringdi síðan aftur nokkru síðar og sagði að málið væri leyst. Annar íbúi hafði þá tekið þvottinn í misgripum. Í tilfellum sem þessum getur verið gott að leita af sér allan grun eða spyrjast fyrir hjá nágrönnum.