30 Júlí 2008 12:00

Fjögur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Fartölvu var stolið úr íbúð í miðborginni og á sama svæði hvarf geislaspilari úr húsnæði skemmtistaðar en þar voru einnig unnar einhverjar skemmdir á innanstokksmunum. Tölvubúnaði var stolið úr fyrirtæki í Hlíðunum en í sama hverfi var brotist inn í annað fyrirtæki en ekki lá ljóst fyrir hvort einhvers var saknað.

Karl á þrítugsaldri var staðinn að þjófnaði í Kringlunni en sá reyndi að komast undan með matvæli án þess að greiða fyrir þau. Veskjum var stolið á tveimur stöðum í miðborginni, annað hvarf frá afgreiðslukonu í verslun en hitt frá viðskiptavini ölstofu. Sami viðskiptavinur saknaði einnig vegabréfs og því ljóst að þjófurinn hefur bakað honum töluverð vandræði. Í Grafarholti var unglingspiltur staðinn að verki en stráksi var gripinn við tilraun til þjófnaðar inni í bíl. Einn af stórtækari þjófunum var hinsvegar á ferð í Hlíðunum en sá stal þurrkara úr sameign fjölbýlishúss.