26 September 2008 12:00

Nokkur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Tölvu var stolið úr húsnæði fyrirtækis í Kópavogi  og úr íbúð í Hlíðunum voru teknir bæði símar og tölvubúnaður. Brotist var inn í bíl í miðborginni en engu stolið og í Grafarvogi hurfu munir úr tveimur bílum. Karl um þrítugt var handtekinn vegna rannsóknar málanna í Grafarvogi en í bíl hans fannst það sem talið er vera þýfi.

Tvær konur voru staðnar að hnupli í matvöruverslunum. Sú eldri, sem er á sextugsaldri, var tekin á Seltjarnarnesi og hin í vesturbæ Reykjavíkur en sú er á þrítugsaldri. Tvítug stúlka var gripin í Kringlunni þegar hún hugðist yfirgefa verslun þar án þess að greiða fyrir fatnað sem hún hafði tekið og loks var karl á sextugsaldri staðinn að verki í ónefndri verslun á höfuðborgarsvæðinu en maðurinn ætlaði að stela kynlífshjálpartæki.