25 Júní 2009 12:00
Nokkur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Þjófur lét greipar sópa í húsi í Árbænum og hafði á brott með sér mikið af verðmætum. Karl á fimmtugsaldri var handtekinn í tengslum við rannsókn málsins og hefur hann viðurkennt að hafa verið þarna að verki. Unnið er að því að endurheimta það sem stolið var. Fatnaði og snyrtivörum var stolið úr fjölbýlishúsi í miðborginni en þjófurinn er ófundinn. Í Kópavogi var brotist inn í tvo bíla og munir teknir úr öðrum þeirra. Sami maður reyndist hafa verið að verki í báðum tilvikum. Hann er á þrítugsaldri og var færður í fangageymslu lögreglunnar. Maðurinn var mjög vel birgur af grillkjöti þegar hann var handtekinn en fátt var um svör þegar spurt var hvaðan maturinn væri kominn. Nagladekkjum var stolið úr fyrirtæki í Mosfellsbæ og í Hafnarfirði voru dekkjaþjófar líka á ferðinni. Tveir menn á þrítugsaldri voru handteknir í síðarnefnda dekkjamálinu.
Tvær konur voru staðnar að hnupli í matvöruverslunum. Þær eru báðar á fertugsaldri en önnur var tekin í vesturbænum en hin í miðborginni. Í miðborginni var einnig stolið veski og vegabréfi af ferðamanni sem fékk sér hressingu á ónefndu veitingahúsi. Sá ætlaði af landi brott í dag og varð því fyrir allnokkrum óþægindum vegna þessa. Loks var tilkynnt um þjófnað á þremur gaskútum í gær. Tveimur var stolið í Grafarvogi og einum í Mosfellsbæ.