21 Janúar 2010 12:00

Sjö innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Dekkjum og felgum var stolið úr tveimur geymslum í Vogunum og í sama hverfi hurfu varahlutir og fartölvur af verkstæði. Fartölvu var líka stolið úr húsi í Árbæ og í Hlíðunum var innbrotsþjófur einnig á ferðinni en sá tók bæði myndavél og skartgripi. Sími og veski var tekið úr bíl í Breiðholti og í Háleitishverfi var einnig brotist inn í bíl en sá sem það gerði hafði lítið upp úr krafsinu en viðkomandi, karl á þrítugsaldri, var handtekinn skammt frá vettvangi. Að venju komu líka hnuplmál á borð lögreglu en nokkrir óprúttnir aðilir voru staðnir að verki í Smáralind, á Korputorgi og víðar. Búðaþjófarnir voru á ýmsum aldri og af báðum kynjum.