20 Desember 2006 12:00

Nokkur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring en mismiklu var stolið. Fartölvu og DVD-mynda var saknað úr húsi í vesturhluta borgarinnar og þá hvarf peningabaukur úr strætisvagni.

Reynt var að brjótast inn í fyrirtæki í útjaðri borgarinnar en þar höfðu þjófarnir ekki erindi sem erfiði en unnu nokkar skemmdir á hurð. Óprúttinn aðili braut sér leið inn í kjallara í austurbænum en tók til fótanna þegar heimilismaður varð hans var. Á öðrum stað í borginni var annar þjófur á ferðinni en sá stökk á flótta þegar þjófavarnarkerfið fór í gang.

Veski var stolið úr matvöruverslun í úthverfi en í því voru bæði símar og greiðslukort. Í annarri matvöruverslun var unglingspiltur gómaður en sá hafði tekið hluti ófrjálsri hendi.