18 Janúar 2007 12:00
Nokkur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Tölvum og myndavélum var stolið úr húsi í Grafarvogi og leikjatölva var tekin úr íbúð í austurborginni. Fartölva hvarf frá heimili í Kópavogi og í nótt braust þjófur inn í fyrirtæki í sama bæjarfélagi. Þá var brotist inn í þrjá bíla á höfuðborgarsvæðinu en úr þeim öllum var stolið einhverju af munum.
Gestur á veitingastað í miðbænum saknaði greiðslukorta og peninga en kona á fertugsaldri var handtekin í tengslum við málið. Óprúttinn aðili stal bensíni í austurborginni og þá var lögreglan kölluð til í tvær matvöruverslanir þar sem þjófar voru á ferðinni.