13 Febrúar 2007 12:00

Fjögur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Hljómflutningstækjum var stolið úr gistihúsi í miðborginni og tölvu- og myndavélabúnaðar er saknað úr íbúð í Breiðholti. Munir voru teknir úr geymslu í vesturhluta borgarinnar en þeir fundust fljótt aftur. Þá var brotist inn í fyrirtæki í Grafarvogi en þar hafði þjófurinn lítið upp úr krafsinu.

Þrítug kona var tekin fyrir að stela áfengi í austurborginni um hádegisbil og unglingspiltur var staðinn að hnupli í matvöruverslun í Hafnarfirði um svipað leyti. Um kvöldmatarleytið tók karlmaður á þrítugsaldri eldsneyti á bensínstöð í austurborginni og fór á brott án þess að greiða fyrir það. Til hans náðist nokkru síðar og var honum gert að borga bensínið. Á sömu bensínstöð kom annar óprúttinn aðili og lék sama leikinn en sá er enn ófundinn. Í nótt var matvælum stolið úr verslun í miðborginni en athæfið náðist á öryggismyndavél og nú er vitað hver þjófurinn er. Sá hinn sami verður látinn svara til saka.