29 Nóvember 2006 12:00

Tvö innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík í gær. Í öðru var verkfærum stolið úr gámi í útjaðri umdæmisins en í hinu var íþróttataska tekin úr bíl í miðbænum. Þjófar voru líka á ferð við fyrirtæki og stofnanir en í austurbænum voru tveir slíkir á stjái. Annar tók bíllykla og síma ófrjálsri hendi en hinn stal tölvubúnaði. Þá voru dekk tekin undan bíl á öðrum stað í borginni. Lögreglan hafði líka afskipti af karlmanni sem var að vinna skemmdir á bíl. Þar reyndist eigandi bílsins vera sjálfur á ferðinni en ekki er vitað hvað honum gekk til.

Þrjú fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar í gær en í þeim öllum fundust ætluð fíkniefni. Fjórir einstaklingar áttu hlut að máli en þeir eru á þrítugs- og fertugsaldri.