14 Nóvember 2006 12:00

Um helgina var brotist inn í fimm fyrirtæki og tvær stofnanir í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík. Í flestum tilfellum var litlu eða engu stolið en einn maður var handtekinn vegna þessa. Sá er karlmaður á þrítugsaldri en hann er grunaður um tvö innbrot. Þá var fatnaði stolið úr geymslu og ýmsir munir í eigu erlendra ferðamanna hurfu frá ónefndum gististað. Um helgina var einnig tilkynnt um innbrot í sumarbústað.  Þar höfðu þjófarnir m.a. tekið sængurfatnað.

Þá bárust fimm tilkynningar um innbrot í bíla. Úr þeim var m.a. stolið geisladiskum, tölvubúnaði og nagladekkjum. Innbrotin, sem hér hafa verið nefnd, voru framin víðsvegar um borgina. Síðasti sólarhringur var öllu skárri hvað þetta varðar en samt var tilkynnt um þrjú innbrot. Tösku var stolið úr bíl í miðbænum og í úthverfi var brotist inn í tvo vinnuskúra en verkfærum var stolið úr öðrum þeirra.