23 Október 2020 10:03

Sjálfsagt hafa margir tekið eftir því að mjög reglulega birtir lögreglan færslur á fésbókinni þar sem varað er við hverskyns glæpum og hvernig megi koma í veg fyrir þá og/eða draga úr líkum á að verða fyrir þeim. Þar hafa skilaboð og ábendingar vegna netglæpa verið sérstaklega áberandi á árinu enda full ástæða til. Það er þó fleira sem þarf að vekja athygli á hér sem annars staðar, en þessa vikuna eru ýmsar Evrópuþjóðir að minna enn og aftur á forvarnir vegna innbrota á heimili og meðfylgjandi mynd tengist einmitt því átaki. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur reyndar einmitt gert það ítrekað í gegnum árin, t.d. að fólk tilkynni um grunsamlegar mannaferðir og skrifi jafnvel hjá sér bílnúmer og lýsingar á fólki ef eitthvað óvenjulegt á sér stað í nánasta umhverfi þess. Jafnframt að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum þegar það fer að heiman og upplýsi nágranna um slíkt, en nágrannavarsla getur skipt sköpum þegar kemur að því að upplýsa innbrot eða koma í veg fyrir þau. Sömuleiðis er mikilvægt að fólk upplýsi ekki um fjarveru sína fyrir allra augum þegar farið er í frí, þ.e. með tilkynningu á samfélagsmiðlum.

Og þótt nú séu takmarkanir í gildi og eiginlega engir á ferðalagi vegna faraldursins er samt ágætt að halda þessu á lofti því sanniði til að sá tími mun koma aftur að við getum farið að ferðast í fríinu okkar!