14 Ágúst 2009 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í fyrrakvöld, eftir ábendingu árvökuls borgara, þrjá menn af erlendum uppruna grunaða um að hafa brotist inn í hús í miðborg Reykjavíkur.

Í framhaldi af handtöku mannanna voru framkvæmdar húsleitir þar sem fannst töluvert magn skartgripa, tölvubúnaðar, myndavéla og fleira. Búið er að tengja hluta hinna haldlögðu muna við innbrot í heimahús á höfuðborgarsvæðinu. 

Í gær handtók lögregla karl og konu af erlendum uppruna sem reynt höfðu að koma stolnum skartgripum í verð á höfuðborgarsvæðinu, sömuleiðis eftir ábendingu frá borgara.  Í framhaldi af handtökunni var farið í húsleitir þar sem talsvert magn þýfis fannst. Það hefur verið tengt við nokkur innbrot í heimahús á höfuðborgarsvæðinu. 

Þeir sem handteknir voru í fyrrakvöld og í gær tengjast innbyrðis.