12 September 2007 12:00
Tveir karlar á fertugsaldri voru handteknir í verslun í Ármúla í gærkvöld. Mennirnir brutu upp útidyrahurð og höfðu stungið á sig skiptimynt úr búðarkassa þegar lögreglan kom á vettvang. Þjófarnir hafa áður komið við sögu hjá lögreglu en annar þeirra var eftirlýstur fyrir aðrar sakir.
Í Kópavogi var stolið nokkru af verkfærum úr þremur húsum á byggingasvæði og í Mosfellsbæ voru líka þjófar á höttunum eftir verkfærum. Tæki og tól voru tekin þar úr vinnuskúr en svo virðist sem styggð hafi komið að þjófunum því þeir skildu verkfærin eftir utandyra.
Þá var brotist inn í tvo bíla í vesturbæ Reykjavíkur og Kópavogi í gær. Úr öðrum var stolið geisladiskum og tölvubúnaði en úr hinum var tekið veski sem hafði að geyma bæði peninga og lykla.