4 Maí 2007 12:00

Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir í austurborginni í nótt en þeir eru grunaðir um innbrot í tvo bíla. Annar mannanna var grímuklæddur og var sakleysið uppmálað þegar komið var á lögreglustöð. Aðspurður um veru sína á bílastæðinu þar sem fyrrnefndum bílum var lagt, sagðist hann vera áhugamaður um steina og hafa verið að skoða nokkra slíka þegar lögreglumenn komu á vettvang. Saga mannsins þótti ekki trúverðug og var hann færður í fangageymslu. Hinn maðurinn fór sömu leið en engum sögum fer af áhuga hans á steinum.

Brotist var inn í tvo aðra bíla annars staðar í Reykjavík en þau mál eru sömuleiðis til rannsóknar. Þá var tilkynnt um skemmdarverk í Hafnarfirði í nótt en þar hafði rusli verið hellt yfir bíl. Við frekari athugun reyndist um svokallaðan hrekk að ræða og því óvíst um eftirmál.