22 Desember 2006 12:00
Lögreglan í Reykjavík handtók tvo karlmenn á þrítugsaldri síðdegis í gær en þeir eru grunaðir um tvö innbrot í miðborginni. Tölvubúnaði var stolið á báðum stöðum en flest það sem húsráðendur söknuðu er komið í leitirnar.
Þá var 18 ára piltur færður í fangageymslu í gærmorgun en sá hafði stolið bíl. Fimm aðrir til viðbótar voru handteknir í gær en í fórum þeirra fundust ýmist ætluð fíkniefni eða þýfi.
Þá hafði lögreglan afskipti af fólki sem var staðið að hnupli í verslunum en töluvert ber á slíku þessa dagana. Raunar er þjófum ekkert heilagt eins og sannaðist enn og aftur í gær en þá var veski stolið af konu sem var að sinna góðgerðarstörfum.