19 Janúar 2011 12:00

Karl á þrítugsaldri var handtekinn í Árbæ í gærkvöld en sá hafði brotist inn í hús í hverfinu. Þjófurinn tók fartölvu, myndavél og skartgripi en hinum stolnu munum var komið aftur í réttar hendur. Segja má að fótspor eftir þjófinn utan við húsið hafi orðið honum að falli en þeim mátti fylgja eftir allnokkurn spotta. Það var og gert en innbrotsþjófurinn var síðan handtekinn í nágrenninu. Hann hefur nú verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 26. janúar að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna.