7 Júlí 2006 12:00

Innbrotum í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík fjölgaði töluvert í júní. Þau eru mun fleiri en undanfarna mánuði og sömuleiðis fleiri sé litið til júnímánaðar á síðasta ári. Þetta er áhyggjuefni og ástæða er til að hvetja almenning til að vera betur á varðbergi. Í síðasta mánuði (júní) voru óvenju mörg innbrot á heimili og ekki síst í bifreiðar. Vitað er að þjófar sækjast m.a. eftir fartölvum, myndavélum, símum og MP3-spilurum og því vissara að hafa slíka hluti ekki fyrir allra augum.

Þrátt fyrir óheillaþróun í júní er vert að geta þess að fyrstu fimm mánuði ársins gekk mjög vel í þessum efnum. Þá fækkaði innbrotum mjög mikið frá fyrra ári. Sem fyrr vill lögreglan ítreka að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum þegar farið er í sumarleyfi.